Nú stendur yfir stór söfnun þar sem margir aðilar ætla að leggjast á eitt og safna fyrir nýju ómskoðunartæki á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Ísafirði. Kvenfélagið Sunna reið á vaðið og hefur farið með bréf til félaga og fyrirtækja á Vestfjörðum. Samskotasjóðurinn Stöndum saman Vestfirðir ákvað að stökkva á vagninn og taka þátt í þessari söfnun og því eru fyrirtæki, félög og einstaklingar nú að leggjast á eitt til að gera nýtt ómskoðunartæki að veruleika. Margir hafa velt því fyrir sér hvort ómskoðunartæki séu einungis fyrir ófrískar konur en svo er alls ekki.
„Á síðustu árum hefur átt sér stað ör þróun ómskoðunartækja og eru þau orðin ódýrari, handhægari og fullkomnari. Felst sú framþróun meðal annars í betri upplausn sem gerir læknum kleift að gera betri skil milli hinna mismunandi vefja líkamans ásamt því að kviðarholslíffæri sjást skýrar. Á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða hefur ómtækið verið í nánast daglegri notkun við fjöldamörg verkefni. Má þar helst telja til mæðravernd, mat á bráðum og krónískum veikindum, mat á slösuðum einstaklingum, ómstýrðar ástungur í liði, brjóst og kviðhol og margt fleira. Er ómskoðunartækið því ómetanlegt hjálpartæki fyrir starfandi lækna á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða“ er haft eftir Súsönnu Björgu Ástvaldsdóttur, lækni á Hvest, í tilkynningu frá Stöndum saman Vestfirði.
Í dag hafa safnast um 2,5 milljónir kr. en nýtt tæki kostar á bilinu 6-8 milljónir kr.
„Tæki sem þessi kosta þó sitt og er það nokkuð ljóst að enginn getur staðið í þessu einn og sér og því ætlum við að gera þetta saman. Við höfum fulla trú á því að þetta takist vel til og fyrr en seinna verði komið nýtt ómskoðunartæki hér í bæ. Við hvetjum alla sem geta og hafa áhuga á að taka þátt að vera með og minnum á að margt smátt gerir eitt stórt.
Nú sýnum við það í verki hvað við erum samstíga þegar kemur að því að hjálpa okkur sjálf,“ segir í tilkynningu Stöndum saman Vestfirðir
Hægt er að leggja inn hjá Kvenfélaginu Sunnu 0556-14-402000 kt. 470510-2260
Einnig er hægt að leggja inn hjá Stöndum saman Vestfirðir 0156-26-216 kt. 410216-0190