Sjómannadagur framundan

Mynd: Sæbjörg Flateyri

Sjómannadagurinn er næsta sunnudag og víða verður mikið um dýrðir. Á Patreksfirði er hefð fyrir miklum hátíðarhöldum og á því verður engin undantekning að þessu sinni. Á dagskránni má sjá Stebba og Eyfa, Hreim og Matta, Skímó og Sirkus Íslands og er þá fátt eitt talið en nánari dagskrá má nálgast á facebook síðu Sjómannadagsráðs.

Bolvíkingar eru líka vanir að gera sér glaðan dag og hefja dagskrána á Þuríðardeginum á morgun og enda á sunnudag með kaffisölu Kvennadeildar Landsbjargar í Félagsheimilinu.  Þar á milli má heyra í Hirti Trausta og Maríu Ólafs, skella sér í hátíðarsiglingu eða fylgjast með leikhópnum Lottu. Margt fleira er í boði en dagskrána má nálgast á heimasíðu Bolungarvíkurkaupstaðar.

Á Flateyri dorga bæði ungir og gamlir, skella sér í reiptog, koddaslag og flekahlaup en dagskráin hefst á föstudegi með Pub Quiz á Vagninum og endar á siglingu um fjörðinn kl. 13:00 á sunnudaginn. Þar á milli má til dæmis á laugardagskvöld skella sér á dansleik í Samkomuhúsinu þar sem F1 rauður ætla að trylla lýðinn á dansgólfinu og fá sér kaffi og með‘í yfir miðjan daginn hjá Kvenfélaginu Brynju. Allt um sjómannadaginn á Flateyri má sjá á facebooksíðu dagsins.

bryndis@bb.is

DEILA