Eins og áður hefur verið greint frá lætur Þorsteinn Jóhannesson yfirlæknir af störfum við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða þann 15. júlí. Þorsteinn hefur starfað við stofnunina í 27 ár. Samkvæmt upplýsingum frá Kristínu B. Albertsdóttur, forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, felur samkomulag um starfslok í sér að Þorsteinn, sem á inni talsverðan frítökurétt, fari í orlof frá 15. júlí til ársloka. Þá tekur við eins mánaða langt námsleyfi samkvæmt réttindum í kjarasamningi lækna. Eftir það tekur við eiginlegur starfslokasamningur sem gildir í 16 mánuði, eða frá 1. febrúar 2018 til 31. maí 2019 þar sem hann heldur föstum grunnlaunum yfirlæknis ásamt því að fá greiddar 15 fastar einingar. Kristín segir að sér sé ekki heimilt að gefa upp launatölur og kostnað Heilbrigðisstofnunarinnar við samninginn og vísar í launatöflur í kjarasamningi lækna.