Rífleg verðhækkun hjá Orkubúinu

Höfuðstöðvar Orkubús Vestfjarða á Ísafirði.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur staðfest breytingar á gjaldskrá Orkubús Vestfjarða fyrir hitaveitur, bæði rafkyntar hitaveitur og jarðvarmaveitur.  Hækkanirnar taka gildi frá og með deginum í dag. Hækkunin nemur 7% á alla taxta hitaveitunnar að undanskildum taxta fyrir rúmmetragjald hitaveitu á Reykhólum sem hækkar um 2,5%.

Á vef Orkubúsins kemur fram að verðskrá hitaveitunnar hefur verið óbreytt frá 1. september 2015 og það tekið fram að hækkunin hafi ekki áhrif á viðskiptavini sem eru með beina rafhitun. Vísitala neysluverðs hefur hækkað um 3% frá því í september 2015 og hækkun Orkubúsins, að undanskilinni 2,5% hækkun á Reykhólum, því ríflega tvöfalt hærri en almenn verðlagsþróun í landinu,

Í janúar 2017 hækkaði Orkubúið gjaldskrá fyrir dreifingu og sölu á raforku og var hækkunin 7% fyrir dreifingu og 4% fyrir sölu. Áhrif þeirrar hækkunar á heildarorkukostnað heimila var minnst hjá heimilum í þéttbýli sem nota fjarvarma til upphitunar, eða 2,1%. Hækkun hjá þeim sem nota rafmagn til upphitunar var 4,5% í þéttbýli en 5% í dreifbýli.

 

DEILA