Minnsta raforkuöryggið á Vestfjörðum

Áreiðanleiki raforkuafhendingar í kerfi Landsnets er minnstur á Vestfjörðum og samfélagslegur kostnaður vegna ótryggrar orkuafhendingar á Vestfjörðum er á bilinu 500-600 milljónir króna á ári. Þetta kom fram í erindi Ásgeirs Margeirssonar, forstjóra HS Orku og stjórnarformanns Vesturverks, á fjórðungsþingi Fjórðungssambands Vestfirðinga. Í erindi hans kom einnig fram að sóknaráætlun Vestfjarða sé í hættu vegna ófullnægjandi raforkuöryggis.

En það er síður en svo svartnætti framundan í raforkumálum Vestfirðinga og Ásgeir fór yfir stór áform sem eru í kortunum sem eiga eftir að gjörbylta orkuöflun og -dreifingu fjórðungsins. Hann taldi upp sex virkjanir sem mikill vilji er til að reisa. Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði er stærst og sú sem er komin lengst á teikniborðinu. Í kynningu Ásgeirs kom fram að virkjunin gæti verið gangsett innan fimm ára, en uppsett afl virkjunarinnar er 55 MW.

Þá eru Austurgilsvirkjun (30 MW) í Skjaldfannardal komnar í nýtingarflokk rammaáætlunar. Hvanneyrardalsvirkjun í Ísafirði (15 MW) og Hest- og Skötufjarðarvirkjun (16 MW) eru á leið til umfjöllunar í rammaáætlun og einnig eru uppi virkjunaráform í Sængurfossi í Mjóafirði (7 MW) og við Skúfnavötn á Langadalsströnd (9,9 MW).

DEILA