Matvælastofnun ber að afhenda eigendum Haffjarðarár hluta af þeim gögnum sem þeir báðu um varðandi rekstrarleyfi Arnarlax vegna laxeldis í Arnarfirði.
Matvælastofnun hafði áður hafnað beiðni um aðgang að gögnum og var ákvörðun stofnunarinnar kærð til úrskurðanefndar. Í úrskurðinum nefndarinnar er fjallað um rétt til aðgangs að gögnum sem innihalda upplýsingar um: Eignarhald, fagþekkingu starfsmanna og gæðakerfi, eigin fjármögnun, rekstraráætlun vegna eldisins og ábyrgðaryfirlýsingu vegna rekstrarleyfisins.
Úrskurðarnefndin taldi litla hættu á því að Arnarlax verði fyrir tjóni ef aðgangur er veittur að upplýsingum um eignarhald og að slíkar upplýsingarnar vörðuðu ekki svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækisins að leynd um þær gangi framar lögbundnum rétti almennings til aðgangs að upplýsingum samkvæmt lögum um upplýsingarétt um umhverfismál. Jafnframt taldi nefndin að kærandi ætti með sömu rökum rétt á gögnum um gæðakerfi fyrirtækisins. Afhenda bæri því skýrslur um búnað, uppsetningu og vottun hans, jafnvel þótt upplýsingar um kaup einkaaðila á búnaði til nota í starfsemi geti talist til viðkvæmra upplýsinga um rekstur hans í skilningi 9. gr. upplýsingalaga. Hins vegar verði almenningur að geta kynnt sér slíkar upplýsingar og ekki yrði séð að fyrirtækið myndi verða fyrir tjóni yrði þær gerðar opinberar, þó með þeirri undantekningu að fjarlægðar skyldu upplýsingar um kaup fyrirtækisins á tilteknum vörum frá erlendum birgja. Taldi nefndin að eðlilegt væri að aðilar geti upplýst stjórnvöld um innkaup sín án þess að eiga á hættu að slíkar upplýsingar væru afhentar öðrum.
Úrskurðarnefndin féllst á að upplýsingar sem bárust um eigin fjármögnun teldust til viðkvæmra upplýsinga um rekstrarstöðu fyrirtækisins og varði viðskiptahagsmuni þess í skilningi upplýsingalaga. Þá taldi nefndin að rekstraráætlun sem fyrirtækið lagði fram teldist tvímælalaust til viðkvæmra upplýsinga um rekstrar- og samkeppnisstöðu fyrirtækisins sem sanngjarnt og eðlilegt væri að leynt færi á grundvelli upplýsingalaga, en í áætluninni voru raktar helstu staðreyndir og ályktanir sem áætlunin hvíldi á, eignir félagsins og skuldir og upplýsingar um fjármögnun þess. Í úrskurðinum segir að þó almenningur hafi nokkra hagsmuni af aðgangi að skjalinu verði þeir að víkja fyrir þeim hagsmunum fyrirtækisins að samkeppnisaðilar geti ekki kynnt sér áætlanir fyrirtækisins og forsendur þess fyrir tilteknum ráðstöfunum. Ákvörðun um að synja um aðgang var staðfest. Sama átti við um ábyrgðaryfirlýsingu vegna trygginga.
Í tilkynningu Matvælastofnunar kemur fram að stofnunin hefur afhent þann hluta umræddra gagna sem bar að afhenda samkvæmt úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál og mun hafa úrskurðinn til hliðsjónar við afgreiðslu sambærilegra umsókna í framtíðinni.