„Einu sinni mætt getur ekki hætt,“ er slagorð Ögurballsins sem að þessu sinni verður haldið þann 22. júlí. Allur ágóði af ballinu renni til gamla Samkomuhússins í Ögri sem var byggt 1926 og þarf alltaf eitthvað til rekstrar og viðhalds. Ágóðinn af Ögurballinu hefur staðið undir rekstri hússins síðustu 19 árin. Það eru Þórunn og Halli, eins og svo oft áður, sem halda uppi stuðinu og samkvæmt hefð hússins verður boðið upp á rabarbaragraun með rjóma.
Árlega er valið andlit Ögurballsins og að þessu sinni er það María Rut Kristinsdóttir sem samkvæmt tilkynningu staðarhaldara í Ögri er 28 ára gamall Flateyrar-og Ísafjarðarbræðingur af bestu gerð. Leitt er að því líkum að hún hafi verið getin á Ögurballi þar sem hún hefur nánast aldrei misst af balli frá því að hún náði 18 ára aldurstakmarkinu. Á daginn vinnur hún fyrir dómsmálaráðuneytið en á kvöldin skoðar hún gamlar myndir frá Ögurböllum seinustu ára og svolgrar í sig rabarbaragraut á meðan. Eða eins og hennar lífsmottó er „þú færð aldrei nóg af rabarbaragraut“.
Hún hefur síðustu ár einsett sér að draga sem flesta með sér á Ögurball og er óþrjótandi peppari og þekkt fyrir að brydda upp á snilldinni sem Ögurballið er við ólíklegustu tilefni. Það var síðast í matarboði í síðustu viku þar sem María hitti nýtt fólk og var á innan við hálftíma búin að sannfæra það um nauðsyn þess að koma á Ögurball í ár.Top of Form