Gistinóttum fjölgar í öllum landshlutum

Gistinóttum erlendra ferðamanna á heilsárshótelum fjölgaði alls staðar á landinu á fyrstu fjórum mánuðum ársins borið saman við sama tímabil í fyrra. Þetta kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans. Í umræðunni hefur verið að nokkuð hafi borið á afbókunum á gistirými á Vesturlandi og Vestfjörðum upp á síðkastið. Talað hefur verið um 35-40% fækkun á gestum í þessu sambandi. Nú ná tölur Hagstofunnar einungis til og með aprílmánaðar þannig að ef þessi þróun er nýtilkomin er eðlilega ekki hægt að sjá hana í tölum Hagstofunnar fyrr en nýrri tölur berast. Tölur Hagstofunnar ná einnig einungis utan um heilsárshótel en þróunin í annars konar gistirými kann að hafa verið mun verri á síðustu mánuðum.

Fjölgunin er minni eftir því sem lengra er farið frá höfuðborgarsvæðinu

Fjölgun gistinátta var töluvert breytileg eftir landsvæðum á fyrstu mánuðum ársins. Þannig var fjölgunin einna minnst á landsvæðum sem eru lengst frá höfuðborgarsvæðinu; Norðurlandi, Austurlandi, Vesturlandi og Vestfjörðum. Fjölgun gistinátta var minnst á Austurlandi, rúm 13% en næstminnst á Norðurlandi eða 23%. Fjölgunin var ívið meiri á Vesturlandi og Vestfjörðum eða tæp 31%. Þessi þróun skýrist að einhverju leyti af því að dvalarlengd ferðamanna hefur verið að styttast á síðustu misserum hér á landi m.a. vegna styrkingar krónunnar sem hefur hækkað dvalarkostnað ferðamanna. Styttri dvalarlengd dregur úr svigrúmi ferðamanna til að ferðast yfir langan veg hér á landi. Þar sem nær allir ferðamenn sem sækja landið heim koma í gegnum Leifsstöð er ljóst að styttri dvalarlengd kemur harðast niður á þeim svæðum sem eru langt frá millilandaflugvellinum. Þetta þýðir einnig að sú styrking sem orðið hefur á krónunni á síðustu misserum og möguleg áframhaldandi styrking til framtíðar mun koma harðar niður á svæðum eins og Austurlandi, Norðurlandi og Vestfjörðum en þeim svæðum sem liggja nær millilandafluginu.

 

 

DEILA