Héraðsdómur Vestfjarða hefur dæmt tvo karlmenn í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa haft í vörslu sinni 191,03 grömm af amfetamíni sem voru ætluð til söludreifingar og 7,8 grömm af marijúana.
Þeir játuðu báðir sök. Annar maðurinn sótti efnin til Reykjavíkur og keyrði með þau vestur á firði og hinn maðurinn tók við efnunum og geymdi þau í frystikistu í ótilgreindu húsnæði.
Annar hinna ákærðu framvísaði efnunum við leit lögreglunnar. Hinn mannanna sem um ræðir á nokkurn sakaferil að baki sem nær aftur til ársins 2004. Hann hefur fjórum sinnum sætt refsingu vegna brota á lögum um ávana- og fíkniefni.
Ákærðu voru dæmdir til að greiða 94 þúsund kr. í sakarkostnað.