Á sjómannadaginn samdi framherjinn Nökkvi Harðarson við Vestra um að leika áfram með liðinu á komandi tímabili. Dagurinn var vel við hæfi enda stundar Nökkvi sjómennsku í Grindavík nú í sumar. Nökkvi kom vestur haustið 2015 og hefur leikið með KFÍ og Vestra síðan. Hann hefur jafnframt þjálfað elsta stúlknahóp félagsins með góðum árangri og var á síðasta tímabili fyrirliði meistaraflokks. Þetta kemur fram á heimasíðu Vestra.
Þar kemur ennfremur fram að Nökkvi hafi tekið miklum framförum undanfarin tvö keppnistímabil, enda hlaut hann viðurkenningu fyrir mestu framfarirnar á lokahófi körfuknattleikskdeildar Vestra í mars með eftirfarandi umsögn: „Nökkvi varð fyrir því óláni að hljóta slæm höfuðmeiðsl á miðju tímabili en lét það þó ekki stoppa sig og kom gríðarlega sterkur inn í seinni hluta mótsins. Það sést vel á því að í fjórum af síðustu sex leikjum deildarinnar var hann með yfir 10 stig auk þess að vera tvisvar með tvennu, sem er meira en 10 stig og 10 fráköst í leik.