Fjölmennustu búðirnar frá upphafi

Þátttakendur á síðustu körfuboltabúðum. Mynd: Ágúst Atlason.

Fimm daga Körfuboltabúðum Vestra lauk á sunnudag og voru þetta stærstu búðirnar frá upphafi. Hátt í 160 voru skráðir í stóru búðirnar fyrir 10-16 ára og 25 í grunnbúðirnar sem ætlaðar eru 1.-3. bekk. Þátttakendur komu úr 16 félögum af öllu landinu „Í grunnbúðunum er verið að gefa börnunum smá sýnishorn af búðunum og þau koma í klukkutíma á dag en í aðalbúðunum er prógram allan daginn,“ segir Birna Lárusdóttir sem situr í framkvæmdastjórn búðanna. Upphaf búðanna má rekja til körfuboltabúða í Serbíu sem hópur frá KFÍ sótti. „Menn sáu að það væri hægt að halda svona búðir hér heima og fyrstu Körfuboltabúðir KFÍ voru haldnar 2007 sem svo breyttust í Körfuboltabúðir Vestra á síðasta ári þegar KFÍ sameinaðist inn í Vestra,“ segir Birna.

Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, var yfirþjálfari búðanna og var hann með níu aðalþjálfara sér til halds og traust og sjö aðstoðarþjálfara.

Foreldrar koma í auknum mæli með sínum börnum og njóta Ísafjarðar og nágrennis á meðan ungviðið kafar dýpra í hina dýru list körfuboltans. „Við bjóðum ekki upp á sólarhringsbúðir þannig að foreldrar eða fararstjórar verða að vera með í för en það er aukast að foreldrar komi með og geri fjölskyldufrí úr þessum dögum.“

Framkvæmdastjórn Körfuboltabúða Vestra: Efri röð f.v. Guðlaug Sigurjónsdóttir, Ingólfur Þorleifsson, Birna Lárusdóttir og Guðni Ó. Guðnason. Neðri röð f.v. Heiðrún Tryggvadóttir, Guðfinna Hreiðarsdóttir og Yngvi Páll Gunnlaugsson.

Það þarf vart að taka fram að skipulagning og framkvæmd búðanna krefst margra vinnufúsra handa og velvilja fyrirtækja, einstaklinga og stofnana. „Við erum sjö í framkvæmdastjórninni og foreldrar í Vestra standa svo vaktina í mismunandi störfum alla dagana og sömuleiðis fólk sem á ekki börn í Vestra en hefur hjálpað okkur ár eftir ár. Fyrirtæki á svæðinu eru mjög dugleg að styrkja okkur og aðstoða og við njótum ávallt góðvildar Ísafjarðarbæjar,“ segir Birna.

Hún segir áhugavert við búðirnar sem nú voru að enda, vera jafnt kynjahlutfall iðkenda. „Við höfum séð á síðastu árum að þetta er að þokast í rétta átt en í ár var það svo gott sem jafnt sem er mjög gleðilegt,“ segir Birna.

DEILA