Fiskafli íslenskra skipa í maí var rúmlega 135 þúsund tonn sem er 27% meira en heildaraflinn í maí 2016. Á tólf mánaða tímabili var aflinn hins vegar svipaður og næstu 12 mánuði á undan. Í tilkynningu Hagstofunnar kemur fram að helsta ástæðan fyrir meiri afla í maí sé aukinn kolmunnaafli. Af honum veiddust rúm 79 þúsund tonn samanborið við tæp 58 þúsund tonn í fyrra. Botnfiskafli jókst um 20% milli ára en rúm 51 þúsund tonn veiddust af botnfisktegundum samanborið við tæp 43 þúsund tonn í maí 2016. Tæp 28 þúsund tonn veiddust af þorski sem er 23% meira en í maí 2016.
Heildarafli á 12 mánaða tímabili frá júní 2016 til maí 2017 er um 1,1 milljón tonn sem er um 1% minna en yfir 12 mánaða tímabili ári áður.
Þá kemur fram að verðmæti afla í maí metið á föstu verðlagi var tólf prósent meira en í maí 2016.