Kortavelta erlendra ferðamanna í íslenskum krónum jókst um tæp 28% í apríl 2017 miðað við sama mánuð árið áður. Á sama tíma var fjölgun ferðamanna um 62% og var þetta fimmti mánuðurinn í röð sem vöxtur ferðamanna var meiri en vöxtur í kortaveltu þeirra, samkvæmt samantekt fjármálaráðuneytisins.
Kortavelta erlendra ferðamanna hefur vaxið nokkuð hraðar en fjölgun þeirra. Neysla á hvern erlendan ferðamann fór vaxandi allt þar til í desember 2016 þegar þróunin snerist við og hún tók að minnka.
„Fyrstu fjóra mánuði ársins 2017 fjölgaði erlendum ferðamönnum sem heimsækja Ísland um 56% miðað við sama tímabil í fyrra og virðist því, enn sem komið er, gengisstyrking krónunnar undanfarið ár hafa haft óveruleg áhrif á fjölgun erlendra ferðamanna sem hingað koma. Því má leiða að því líkum að þó gengissveiflur hafi ekki veruleg áhrif á fjölda ferðamanna sem sækja landið heim þá hafi þær áhrif á neyslu þeirra í krónum. Ferðafólk ákveði, meðvitað eða ómeðvitað, hve miklu það ætli að eyða í sinni heimamynt í heimsókninni til Íslands og sú neysla haldist óbreytt, en sveiflist í íslenskum krónum í samræmi við gengissveiflur krónunnar,“ segir í frétt á vef fjármálaráðuneytisins.