Bæjarráð Ísafjarðarbæjar fagnar áformum samgönguráðherra um byggingu flugstöðvar í Vatnsmýri. Í ályktun bæjarráðs segir að ljóst sé að núverandi flugvöllur mun standa þarna næstu árin. „Óbreytt ástand í flugstöðvarmálum er óviðunandi og því þarf að bregðast við með bættri aðstöðu svo að innanlandsflug geti dafnað.“
Jón Gunnarsson samgönguráðherra greindi frá því í síðustu viku að hann vonist til að framkvæmdi við nýja flugstöð geti hafist á næsta ári. „Það er í mínum huga mikilvægt að hefja sómasamlega uppbyggingu á aðstöðu fyrir farþega og starfsmenn í Vatnsmýri,“ sagði Jón í viðtali í Morgunblaðinu.