Erlendum ríkisborgurum fjölgar hratt

Byggingageirinn ásamt ferðaþjónustu kallar á aukið vinnuafl.

Vinnumálastofnun áætlar að um þrjú þúsund manns komi til Íslands á vegum starfsmannaleiga í ár. Það yrði tvöföldun milli ára. Að auki áætlar stofnunin að um þúsund útsendir starfsmenn komi hingað til lands í ár. Það yrði álíka fjöldi og í fyrra. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag. Til að setja þennan fjölda, samtals um 4.000 manns, í íslenskt samhengi bjuggu um 4.300 manns í Vestmannaeyjum um áramótin, samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Misjafnt er hversu lengi þessir starfsmenn dvelja á Íslandi. Útsendir starfsmenn koma á vegum fyrirtækja í Evrópu og vinna að ákveðnum verkefnum. Þeir mega dvelja hér mest 183 daga án þess að þurfa að greiða hér skatta af launum. Starfsmenn á vegum starfsmannaleiga greiða hins vegar skatta af launum frá fyrsta degi.

Samkvæmt tölum frá Hagstofunni voru hér um 26.500 erlendir ríkisborgarar í byrjun síðasta árs en tæplega 30.300 í byrjun þessa árs. Það er fjölgun um 3.800 manns milli ára.

DEILA