Fyrsta kennslustund í grunnámi í íslensku fyrir erlenda starfsmenn Íslenska kalkþörungafélagsins á Bíldudal fór fram í gær, fimmtudag. Það er fyrirtækið Retor sem hefur umsjón með kennslunni. Alls stunda átta pólskir starfsmenn námið að þessu sinni, sem fram fer á pólsku í gegnum fjarfundarbúnað Retor á skrifstofu Kalkþörungafélagsins.
Í fyrsta tímanum var kennt í tvær kennslustundir, en alls spannar námið 10 skipti þar sem kennt er í tvær stundir í senn. Grunnnáminu lýkur í lok júní og þá verður hafist handa við undirbúning á næsta stigi íslenskunámsins.