Vinnuhópur frá SEEDS sjálboðaliðsamtökunum kom til Hólmavíkur 1. júní og ætla að dvelja á Ströndum fram í miðja vikuna. Í fyrstu voru þau sex, en fimm sjálfboðaliðar klára vistina. Þau hafa unnið að endurbótum göngustíga í Kálfanesborgum og í fjörunni í námunda við minnismerkið um Stefán frá Hvítadal. Hópurinn hefur dvalist í Ungmennahúsinu Fjósinu og unnið undir handleiðslu Lýðs Jónssonar.
Á tímabilinu er hefð fyrir því að taka einn dag í frí og halda í ævintýraferð. Ferðin var farin á föstudaginn undir leiðsögn Estherar Aspar Valdimarsdóttur og Ástu Þórisdóttur. Hópurinn hélt yfir heiði í Ísafjarðardjúp og var keyrt að Tyrðilmýri á Snæfjallaströnd. Þar var hópurinn sóttur á bát og farið í dúntekju og skoðunarferð í Æðey. Á vef Strandabyggðar segir að heimsóknin í Æðey hafi verið einstök lífsreynsla í náttúrufegurð, góðviðri og fjölbreyttu fuglalífi. Hópurinn klappaði kollum, kynntist fornum vinnuhefðum, skoðaði vitann og synti í sjónum.
Að lokinni Æðeyjarferð var haldið í Lyngholt þar sem Ólafur Engilbertsson leiddi hópinn um gamla skólann, einkasafn föður síns. Engilberts Ingvarssonar, og sagði frá Spánverjavígunum. Á bakaleiðinni var að sjálfsögðu stoppað við í Kaldalóni og gengið í átt að jöklinum. Deginum lauk svo með rjúkandi kaffi og meðlæti í Steinshúsi á Nauteyri.