Í dag opnar Byggðasafn Vestfjarða nýja grunnsýningu safnsins. Sýningin ber heitið Ég var aldrei barn og fjallar um stéttaátök og verkalýðsbaráttu á fyrrihluta 20 aldar. Sagan er sögð út frá sjónarhóli Karítasar Skarphéðinsdóttur (1890-1972) en hún barðist fyrir bættum lífskjörum fiskverkafólks á umbrotatímum í sögu verkalýðshreyfingarinnar.
Árin (1922-1938) sem Karitas bjó á Ísafirði voru hennar þróttmestu ár, þá barðist hún hart i verkalýðsmálum, fylgdi fyrst róttækari armi Alþýðuflokksins, en gekk i Kommúnistaflokkinn þegar hann var stofnaður. Karitas sagði sjálf að þegar hún mætti á fund eða til átaka við atvinnurekendur og afturhaldsöfl á Ísafirði, hafi hún jafnan skartað sínu besta. Sagt er að þessi vísa hafi verið ort um Karítas þegar hún var verkakona á Ísafirði:
Ein er gálan gjörn á þras
gulli og silki búin.
Kaffiskála Karitas
kommúnistafrúin.
Fjölmargir hafa komið að sýningunni, þannig gerði Sigurður Pétursson sagnfræðingur rannsóknarvinnu fyrir safnið. Rithöfundurinn Eiríkur Örn Norðdahl samdi leikþátt sem byggður er á atburðum hjá Verkalýðsfélaginu Baldri árið 1936. Sölvi Björn Sigurðsson, skrifar sýningaskrá sem byggð er á rannsóknum Sigurðar Péturssonar. Uppsetning og smíðavinna var í höndum Magnúsar Alfreðssonar. Jóhannes Jóhannesson sá um hljóð- og myndvinnslu.
Sýningaropnunin í dag er á milli kl 17 19 og eru allir velkomnir.