Bætt aðgengi ferðamanna að salernum

Sett verður upp hleðslustöð fyrir rafmagnsbíla við Hvítanes í Ísafjarðardjúpi.

Verið er að koma upp sal­ern­um fyr­ir ferðamenn á 15 stöðum hring­inn í kring­um landið. Þetta kem­ur fram í frétta­til­kynn­ingu frá at­vinnu­vega- og ný­sköp­un­ar­ráðuneyt­inu. Rifjað er upp að stjórn­stöð ferðamála hafi fyrr á þessu ári skil­greint brýn for­gangs­verk­efni vegna yf­ir­stand­andi árs og hafi eitt af þeim verið að bæta aðgengi ferðamanna að sal­ern­um á lands­byggðinni – einkum á þeim stöðum í vega­kerf­inu þar sem langt væri í næstu þjón­ustu.

„Þess má geta að þar með eru svo til öll for­gangs­verk­efni sem Stjórn­stöðin til­greindi kom­in til fram­kvæmda eða í ör­uggu ferli með til­heyr­andi fjár­magni. Má þar nefna fjöl­marg­ar úr­bæt­ur í ör­ygg­is­mál­um ferðamanna – sam­an­ber m.a. stór­auk­in fram­lög í nýj­um sam­starfs­samn­ingi um Sa­feTra­vel verk­efni Lands­bjarg­ar – aukna land­vörslu og fleira,“ seg­ir enn­frem­ur. Ráðuneytið standi straum af öll­um kostnaði við verk­efnið sem nemi um 90 millj­ón­um.

Sal­ern­in verða staðsett á eft­ir­far­andi stöðum:

Vest­f­irðir
Mela­nes
Hvalsá
Hvanna­dalsá
Hvíta­nes

Suður­land
Djúpá
Lauf­skála­varða

Vest­ur­land
Reykja­dalsá – Dal­ir
Katta­hrygg­ur

Norður­land
Ljósa­vatn

Norðaust­ur­land
Jök­ulsá á fjöll­um
Hring­veg­ur við Norðaust­ur­veg/​Vopna­fjörður
Jök­ulá á Dal

Suðaust­ur­land
Fos­sá
Þvottá
Hesta­gerði

 

DEILA