Hraðfrystihúsið – Gunnvör hf. í Hnífsdal og Vinnslustöðin hf. í Vestmannaeyjum hafa komist að samkomulagi um kaup síðarnefnda fyrirtækisins á togaranum Páli Pálssyni ÍS, með fyrirvara um samþykki stjórnar Vinnslustöðvarinnar. Samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða hafa sveitarfélög forkaupsrétt þegar fiskiskip eru seld til fyrirtækja í öðrum sveitarfélögum. Í bréfi Einars Vals Kristjánssonar, framkvæmdastjóra Hraðfrystihúsins – Gunnvarar, til Ísafjarðarbæjar er bænum boðinn forkaupsréttur að skipinu. Jafnframt er tekið fram að skipið verði selt án aflaheimilda. Gert er ráð fyrir að Páll verði afhentur nýjum eiganda fljótlega eftir næstu mánaðamót.