Afar góð þátttaka

Hópurinn sem stóð fyrir heilsufarsmælingum á Vestfjörðum.

Aðalverkefni SÍBS – Líf og heilsu vorið 2017 voru heilsufarsmælingar á Vestfjörðum og komu mælingarnar í kjölfar samskonar mælinga á Vesturlandi. Markhópur SÍBS – Lífs og heilsu er almenningur, einkum þeir sem ekki eru þegar undir eftirliti læknis vegna lífsstílstengdra sjúkdóma. Mældur var blóðþrýstingur, púls, súrefnismettun, blóðfita og blóðsykur og spurt var um búsetu, aldur, lyfjanotkun, hæð, þyngd, sjúkdóma og ættarsögu. Þetta kemur fram í framkvæmdaskýrslu verkefnisins.

Af þeim 574 einstaklingum sem ekki voru að taka lyf við háum blóðþrýstingi mældust 84 með efri mörk blóðþrýstings 160 mmHg eða hærra. Af þessum 84 voru 51 einstaklingur 65 ára eða yngri en 50 ára. Til að setja þetta í samhengi, þá má spara samfélaginu um 75 milljónir króna ef hægt er að fresta dauða eða óvinnufærni um 10 ára hjá einum einstaklingi, mælt í vergri landsframleiðslu á mann.

Stefanía Kristinsdóttir, kynningar og fræðslustjóri SÍBS segir að þrátt fyrir að fresta hafi þurft mælingum vegna veðurs hafi það ekki komið niður á þátttöku sem hafi víða verið afar góð, til dæmis voru 58% íbúa Drangsnes mældir í þessari umferð. Stefanía segir ennfremur að náðst hafi til fjölda einstaklinga sem voru ómeðvitaðir um háþrýsting eða of há gildi blóðfitu eða blóðsykurs, einstaklinga sem fengur í kjölfarið ráðgjöf frá hjúkrunarfræðingum heilsugæslunnar.

 

 

DEILA