Þrátt fyrir að veðurguðirnir séu örlítið að stríða okkur í dag er vorið komið á Fróni. Gróður er tekinn að vakna eftir vetrardvalann og fiðraðir sumargestir mæta einn af öðrum með von um ljúfa daga í björtu sumrinu. Í grunnskólum landsins tekur dagskráin á sig annan blæ og víða leitast við að færa kennslustundirnar úr kennslustofunum út í náttúruna og nærumhverfið. Í Grunnskólanum á Ísafirði er nú vordagskráin frágengin og ljóst að nóg verður um að vera það sem eftir lifir skólaársins, þar sem nemendur fá enn frekari þjálfun í mörgum grunnþáttum menntunar líkt og læsi, sköpun, heilbrigði og velferð. Þar læra þau um læsi á samfélag, menningu, umhverfi og náttúru, svo þau megi byggja sig upp andlega og líkamlega, bjarga sér í samfélaginu og læra að vinna með öðrum.
Meðal þess sem nemendurnir koma til með að gera næstu vikurnar er að fara í hinar ýmsu vettvangsferðir, til að mynda á slökkvistöðina. Þau fara í hjólaferðir, 1. bekkur heimsækir Íslandssögu á Suðureyri, 2. og 5.bekkur Náttúrugripasafnið í Bolungarvík, 3.bekkur fer í sveitaferð, 8.bekkur heimsækir Hrafnseyri og 10.bekkur fer á slóðir Gísla Súrssonar í Haukadal, svo einhver dæmi séu tekin. Þá munu 10.bekkingarnir einnig fara í starfskynningar í hin ýmsu fyrirtæki í bænum. Þá verður leikjadagur og vorverkadagur þar sem hver bekkur fær úthlutað ákveðnu verkefni, eins og að gróðursetja tré í Tungudal, setja niður kartöflur og grænmeti, mála grindverk á Skipagöturóló og tína rusl til að fegra bæinn.
Það styttist svo í að bresti á með sumarfríi nemenda en skólaslit Grunnskólans á Ísafirði þetta vorið verða 2.júní.