Vestri fær styrk til að reisa knattspyrnuhús

Teikning af knattspyrnuhúsi á Torfnesi úr skýrslu Vestra um knattspyrnuhús á Ísafirði.

Íþróttafélagið Vestri hefur fengið 10 milljóna króna styrk úr mannvirkjasjóði Knattspyrnusambands Íslands til að reisa knattspyrnuhús á Ísafirði. Mannvirkjasjóður KSÍ úthlutaði á dögunum 170 milljónum króna til 25 verkefna. Bygging knattspyrnuhúss er áralangur draumur hjá knattspyrnuforkólfum á Ísafirði og málið er komið á skrið innan bæjarkerfisins. Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar er með skipulagsmál á Torfnesi til umfjöllunar og ætlunin er að finna út hvort og hvernig knattspyrnuhús kemst best fyrir á svæðinu. Ekki hefur tekin formleg ákvörðun um að reisa húsið og samkvæmt reglum mannvirkjasjóðs þarf að sækja um styrki aftur vegna verkefna sem hefjast ekki á árinu.

Kostnaður við knattspyrnuhús er samkvæmt árs gamalli skýrslu Vestra 235-262 milljónir króna eftir útfærslu og efnisvali hússins.

DEILA