Vestfirðingar heilsufarsmældir í vikunni

Heilsufarsmælingar á norðanverðum Vestfjörðum frestast um óákveðinn tíma .

Hjartaheill og SÍBS í samstarfi við sveitarfélög og Heilbrigðisstofnanir Vestfjarða og Vesturlands bjóða Vestfirðingum ókeypis heilsufarsmælingu þessa vikuna. Mælingarnar ná til helstu áhættuþátta lífsstílssjúkdóma þar sem mældur er blóðþrýstingur, blóðsykur, blóðfita, súrefnismettun og styrkur auk þess sem boðið verður upp á öndunarmælingu fyrir þá sem mælast lágir í súrefnismettun. Jafnframt gefst þátttakendum kostur á að svara lýðheilsukönnun. Fræðsla um lífsstílstengda sjúkdóma verður í boði, hjúkrunarfræðingar frá heilsugæslunni verða á staðnum og veita ráðgjöf og eftirfylgd.

Guðmundur Löve framkvæmdastjóri SÍBS mun að þessu tilefni halda erindið „Stóra myndin í heilbrigðismálum“ í Fræðslumiðstöð Vestfjarða á Ísafirði 11. maí kl. 12-13.  Fjarfundur verður á Patreksfirði.

Heilsufarsmælingarnar hefjast á morgun þar sem starfsmenn verkefnisins hefja leikinn í Búðardal á milli 11-13, á Reykhólum frá 12-14 og á Patreksfirði frá 18-20. Á öllum heimsóknarstöðum fara mælingar fram á heilsugæslunni. Á miðvikudag verða fjórir staðir heimsóttir, Tálknafjörður og Bíldudalur á milli 10 og 12. Þingeyri frá 16-18 og Flateyri á milli 17 og 19.

Á fimmtudag verða aftur fjórir viðkomustaðir á dagskrá: Ísafjörður á milli 10 og 14, Suðureyri og Bolungarvík frá 15-17 og í Álftaveri í Súðavík frá 18-20. Vestfjarðahring Hjartaheill og SÍBS lýkur á föstudag er mælingar verða í samkomuhúsinu á Drangsnesi frá 10 – 12 og á Hólmavík á milli 14 og 17.

Reglulega verður greint frá niðurstöðum mælinga á Facebook síðu SÍBS auk þess sem þátttakendum gefst kostur á að fá sínar niðurstöður sendar í tölvupósti ásamt heildarniðurstöðum. Oddvitar, bæjar- og sveitarstjórar munu opna mælingarnar í sinni heimabyggð.

annska@bb.is

 

DEILA