Á morgun og miðvikudag fara fram tvær meistaraprófsvarnir í Háskólasetri Vestfjarða. Báðar ritgerðirnar fjalla um málefni sem gætu verið áhugaverð fyrir marga á svæðinu, þótt rannsóknirnar beinist annars vegar að Kanada og hins vegar Skotlandi. Á morgun þriðjudag, klukkan tólf á hádegi, fjallar Lloyd Hulms um áhrif laxeldis við Bayo of Fundy í Kanada á krabbadýr og fiska, en í New Bruswick í Kanada eru vaxandi áhyggjur af því að aukin umsvif laxeldis hafi slæm áhrif á botnlægt lífríki með áherslu á hinn efnahagslega mikilvæga ameríska humar. Markmið ritgerðarinnar var að vakta áhrif fiskeldis á krabbadýr og fiska í Quoddy Region í New Brunswick.
Í hádeginu á miðvikudag fjallar Jack Smith svo um fiskveiðistjórnunarkerfi í Skotlandi. Í ritgerðinni The Scarcity of Fish, the Proliferation of Property and the Fishermen Caught in the Middle: Property rights and the connection to labour in Scotland’s demersal fishery, fjallar Jack um tengsl eignaréttar og vinnu í botnsjávarveiðum í Skotlandi. Rannsóknin byggir á ítarlegum eigindlegum viðtölum við skipstjóra sem reka eða hafa rekið eigin skip.
Þeir Jack og Lloyd hafa báðir stundað meistaranám í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða.
annska@bb.is