Tvær meistaraprófsvarnir í dag

Háskólasetrið er til húsa í Vestra.

Það er mikið um að vera í Háskólasetri Vestfjarða þessa dagana er hver nemandinn á fætur öðrum í meistaranámi í haf- og strandsvæðastjórnun ver lokaverkefni sitt. Í dag fara þar fram tvær varnir og hefst sú fyrri klukkan 12 er Jessica Melvin ver lokaritgerð sína sem ber titilinn Plastic ingestion in Atlantic cod (Gadus morhua) on the east coast of Newfoundland, Canada. Í ritgerðinni rannsakar Jessica magn plasts í fæðuinntöku þorsks við Nýfundnaland og ber saman við niðurstöður sambærilegrar rannsóknar sem gerð var ári áður. Í rannsókn Jessicu er einnig fjallað um skort á stöðlum fyrir rannsóknir á þessu sviði. Þá eru einnig settar fram tillögur að stefnumörkun til að koma á langtíma eftirliti með plastmengun í hafinu við Nýfundnaland.

Klukkan 15, mun svo Brian Francis Gerrity verja meistararitgerð sína sem ber titilinn Applying a Coastal Vulnerability Index 
to San Mateo County and Comparing to Stakeholder’s Perception of Risk. Þar fjallar Brian um matsaðferðir og lausnir til að berjast gegn landrofi sjávar í heimabæ sínum Half Moon Bay í Kaliforníu. Verkefnið hefur vakið athygli á heimslóðum Brians og var fjallað um það í þarlendum fjölmiðlum fyrr í vetur.
Nánar má fræðast um verkefnin á vefsíðu Háskólaseturs Vestfjarða.

DEILA