Landvernd skorar á sveitarstjórn og landeigendur í Árneshreppi á Ströndum að falla nú þegar frá öllum áformum um Hvalárvirkjun en stefnt verði að því að stofna þjóðgarð á svæðinu. Á ályktun landsfundar Landverndar segir að með þjóðgarði mundu strax skapast nokkur langtímastörf í náttúruvernd og til langs tíma fjölmörg störf í náttúrutengdri ferðamennsku. Landvernd hafnar því að fjármunum almennings sé varið til stuðning við tengivirki Landsnets á Nauteyri við Ísafjarðardjúp og leggja til að frekar sé lagt til fé í uppbyggingu Strandaþjóðgarðs.
Hvalárvirkjun mun heldur ekki leysa raforkuvanda Vestfirðinga, að mati Landverndar, þar sem ekki er gert ráð fyrir tengingu við Ísafjörð heldur verði orka flutt beina leið inn á landsnetið í Geiradal með viðkomu í tengivirki í botni Ísafjarðardjúps.
„Bygging Hvalárvirkjunar skapar engin langtímastörf fyrir sveitina en mikla atvinnu á tveggja til þriggja ára framkvæmdatíma. Fyrir sveitarfélag í vanda vegna fólksfækkunar er átaksverkefni af þessu tagi engin lausn. Sérstaða svæðisins mun hverfa að meira eða minna leyti þegar Hvalárvirkjun er risin með tilheyrandi veitum, uppistöðulónum og upphækkuðum vegum. Hvalárvirkjun mun heldur ekki leysa raforkuvanda Vestfirðinga þar sem ekki er gert ráð fyrir tengingu við Ísafjörð heldur verði orka flutt beina leið inn á landsnetið í Geiradal með viðkomu í tengivirki í botni Ísafjarðardjúps sem Landsnet myndi reisa sem meðgjöf til virkjunaraðilanna frá hinu opinbera. Bygging raflínunnar mun spilla enn frekar óbyggðu víðerni Ófeigsfjarðarheiðar,“ segir í ályktun Landverndar.