Syngja og Zuzu Knew í Edinborg

Í kvöld verður boðið upp á tónleika með hljómsveitinni Syngja í Edinborgarhúsinu einnig verður þar listgjörningur í boði listakvennanna Zuzu Knew, sem er listamannsnafn Jasa Baka og Francis Adar. Þá mun Deborah Alanna lesa upp úr verkum sínum. Fjöllistahópur þessi hefur dvalið í gestavinnustofum Arts Iceland á Ísafirði undanfarinn mánuð og munu þau sýna afrakstur vinnu sinnar í kvöld ásamt eldra efni. Með hópnum eru einnig hljóðlistamaðurinn Eric Shaw og kvikmyndagerðarkonan Catherine Legault sem vinnur heimildarmynd um verkefnið. Dansnemendur frá Listaskóla R.Ó. koma einnig fram á sýningunni.

Samstarf hópsins hófst í kringum upptökur langömmu þeirra Jasa Baka og Tyr og ömmu Deboru, Ingibjargar Guðmundsdóttur sem fluttist frá Vestmannaeyjum til Kanada árið 1924. Hún náði háum aldri og lést árið 1994, þá 103 ára. Á áttunda og níunda áratug síðustu aldar söng hún vísur og þjóðlög, eftir minni, sem og sínar eigin, inn á kassettur sem hún sendi til dóttur sinnar Jónu sem bjó í Montreal og átti hún að spila þær fyrir barnabörnin.

New spring, samstarfsverkefni hópsins nú, er því í raun samstarf fjögurra kynslóða kvenna sem hófst á Íslandi árið 1924. Verkefnið tengir listamenn úr ýmsum áttum sem ekki eru tengdir því fjölskylduböndum sem saman skapa vel ígrundað og töfrandi form sagnamennsku. Sjónheimur Zuzu Knew og tónlist Syngja eru innblásin af persónugerðri náttúru og dulúðlegum erkitýpum.

Tónlistin og hið sjónræna flýtur á milli þess sem er hér og handanheima. Í tónlistinni mætast nútímaheimur raftónlistarinnar, klassískur sellóleikur, hljóðgervlar og raddir. Lifandi myndmáli er varpað er á senuna á meðan á tónleikum stendur og leika búningar Zuzu þar einnig stórt hlutverk. Í heiminum sem þau skapa er ekki að finna skýra línu sem skilur að hvar raunveruleikinn endar og fantasían hefst.

Ekki þarf að greiða fastan aðgangseyri á tónleikana sem hefjast klukkan 20, heldur borgar hver það sem hann vill og getur.

annska@bb.is

DEILA