Rukka inn í Skrúð

Hefja á innheimtu aðgangseyris í lystigarðinn Skrúð í Dýrafirði í sumar. Framkvæmdasjóður garðsins segir þetta nauðsynlegt vegna þess að ekkert framlag hafi fengist frá ríkinu til Skrúðs á síðustu tveimur árum, í fyrsta sinn síðan 1996.  „Það er því nauðsynlegt að tryggja lágmarks þjónustu og uppbyggingu við Skrúð og ekki neitt í augsýn sem gæti tryggt rekstur hans, annað en gjaldtaka við garðinn,“ segir í bréfi þar sem óskað var heimildar  Ísafjarðarbæjar fyrir því að innheimta  aðgangseyri að Skrúði. Rætt er um að upphæðin verði 300 krónur og að gjaldtakan hefjist 17. júní. Bæjarráð Ísafjarðarbæjar setur sig ekki upp á móti gjaldtöku þar sem öll tilskilin leyfi liggja fyrir.

Til að bregðast við síaukinni umferð ferðamanna um Skrúð er einnig nauðsynlegt að koma upp bráðabirgðasalernisaðstöðu þar til að varanleg aðstaða á fyrirhuguðum byggingarreit verður komin í gagnið. Því hefur Framkvæmdasjóður Skrúðs farið þess á leit við Ísafjarðarbæ að fá bráðabirgðastöðuleyfi fyrir salernisaðstöðu.

DEILA