Rausnarskapur Færeyinga gleymist aldrei

Annika Olsen, borgarstjóri í Þórshöfn, afhjúpaði listaverkið sem er eftir Jón Sigurpálsson.

Í gær var listaverkið Tveir vitar afhjúpar í Þórshöfn í Færeyjum. Verkið er eftir ísfirska listamanninn Jón Sigurpálsson og er gjöf Súðavíkurhrepps og Ísafjarðarbæjar til færeysku þjóðarinnar til að sýna þakklæti íbúa sveitarfélaganna fyrir hlýhug og rausnarskap Færeyinga eftir snjóflóðin í Súðavík og á Flateyri árið 1995.

„En Færeyingar gerðu meira en að gráta með Íslendingum. Færeyingar tóku saman höndum í bæði skiptin til hjálpar Íslendingum. Hér safnaðist mikið fé til að aðstoða fólkið í Súðavík og á Flateyri við að byggja upp aftur eftir flóðin. Fyrir gjafafé Færeyinga voru byggðir leikskólar í Súðavík og á Flateyri. Þeir hafa nýst okkur vel í tuttugu ár og nýtast okkur vel enn þann dag í dag.

Með rausnarlegum hætti réttu Færeyingar hjálparhönd – hjálparhönd sem markaði spor í hjörtu Íslendinga – og mun aldrei gleymast,“ sagði Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar við athöfn í Þórshöfn í gær.

 

 

Listaverkið Tveir vitar er skírskotun til margra þátta í lífi og sál þjóðanna. Vitarnir og ljósið í þeim er tákn um lífsbjörg, tákn um hjálpina, tákn um öruggt skjól. Leiðarljós vita hefur lýst þjóðunum leiðina um dimma daga og erfið veður. Vitar eru báðum þjóðunum mikilvægir í daglegum störfum til sjávar.

Kveikjan að listaverkinu er hinn órjúfanlegi skyldleiki beggja þjóða frá landnámi eyjanna, sem meðal annars má lesa um í Færeyinga sögu sem rituð var á Íslandi á söguöld. Nafn verksins undirstrikar þetta, en í ritmáli þjóðanna eru Tveir vitar skrifað eins á íslensku og færeysku.

Í efnisvali horfði listamaðurinn til jarðsögunnar. Blágrýti og stál eru harðneskjuleg efni en eru undurmjúk þegar þau hafa fengið meðhöndlun – verið pússuð og fægð. Litirnir í verkinu eru í alþjóðlegum litastaðli fyrir vita.

DEILA