Þrjátíu og sjö krakkar sækja Bíldudalsskóla. Nemendur voru átján þegar fæst var. Þetta kemur fram í viðtali sérblaðs Fréttablaðsins um skólamál við Ásdísi Snót Guðmundsdóttur skólastjóra Bíldudalsskóla. sl laugardag. „Það hefur verið ævintýralegt að fylgjast með fólksfjölgun í sveitarfélaginu síðustu ári og auðvitað mjög ánægjulegt“, segir Ásdís Snót Guðmundsdóttir, skólastjóri Bíldudalsskóla en þar hefur fjöldi nemenda hátt í tvöfaldast á nokkrum árum.
Úr 18 nemendum í 37
Þegar fæst var í skólanum voru nemendur átján talsins og hafði þá farið fækkandi í nokkur ár. „Upp úr árinu 2007 fór aðeins að lifna yfir málum en um það leyti var kalkþörungaverksmiðjan reist í sveitarfélaginu og íbúum fjölgaði. Haustið 2015 voru þeir orðnir þrjátíu og fimm en þá hafði Arnarlax hafið starfsemi í Arnarfirði. Síðasta haust var fjöldi nemenda við skólann orðinn þrjátíu og sjö. Fólki getur líka fækkað jafn hratt og því fjölgar, ef ein barnmörg fjölskylda flyst í burt fækkar um marga nemendur í skólanum. En vonandi heldur áfram að fjölga, það er skemmtilegri þróun“, segir Ásdís. Skólinn er í nánu samstarfi við leikskólann í bænum þar sem fjöldi barna sveiflast einnig til.
Vaxtarverkirnir eru húsnæðismálin
„Ég hugsa að helstu vaxtarverkir þessar þróunar séu húsnæðismálin“, segir Ásdís. Það vanti leiguhúsnæði fyrir fjölskyldufólk. „Fólk leggur kannski síður í að byggja úti á landi með tilheyrandi kostnaði.“