Kostnaður við jarðvinnu og grundun fyrir fjölnotahús á Torfnesi getur numið tæpum 100 milljónum króna. Skipulags- mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar vinnur að nýju deiliskipulagi á Torfnesi og þar er til umfjöllunar staðsetning fyrir fjölnotahús. Verkfræðistofna Verkís var fengin til að meta kostnað við grundun lóðanna og voru tvær staðsetningar skoðaðar. Annars vegar á gervigrasvellinum og hins vegar milli grasvallar og íþróttahússins. Niðurstaða Verkís er að kostnaður við grundun milli grasvallar og íþróttahúss er 90 milljónum króna dýrari en á gervigrasvellinum.
Í minnisblaði Verkís kemur að nokkur þekking er á jarðvegi og undirlagi á svæðinu. Árið 1998 gerði Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen, nú Verkís, jarðvegsrannsóknir á Torfnesi vegna fyrirhugaðra framkvæmda við leik- og grunnskóla á svæðinu. Rannsóknin fól meðal annars fram með jarðvegsborunum og jafnframt voru teknar sex gryfjur á svæðinu með beltagröfu. Niðurstaða rannsóknarinnar var að á svæðinu milli grasvallar og íþrótthússins er efsti metrinn sæmilega þéttur, en þar undir er fast undirstaða á þriggja til fjögurra metra dýpi.
Förgun á rusli dýrasti þátturinn
Miðað við stærð hússins má gera ráð fyrir að fjarlægja þurfi allt að 12 þúsund rúmmetra af svæðinu milli grasvallar og íþrótthússins. Á þessu svæði er stór fráveituútrás sem þyrfti að færa til, þá þarf að færa grasvöll til um 9 metra vegna brunavarna. Jafnframt mun frjálsíþróttasvæðið fara undir húsið og um 20 metrar af hlaupabrautinni. Svæðið milli vallanna er of lítið fyrir þessa aðstöðu og því þyrfti að finna því annan stað. Í minnisblaði Verkís kemur fram að svæðið var áður ruslahaugar og kostnaður við að fjarlægja rusl er verulegur og mikil óvissa í magni. Ef miðað er við að ruslið sé að meðaltali einn metri að þykkt þá er magnið 3700 rúmmetrar. Gjaldskrá Funa gerir ráð fyrir rúmmetragjaldi 9470 kr/m³ eða förgunarkostnaði upp á 35 milljónir króna. Kostnaður við endurbyggingu frjálsíþróttasvæðis er áætlaður 25 milljónir króna.. Áætlaður kostnaður við færslu á grasvelli og girðingu er 4 milljónir króna og kostnaður við færslu á fráveiturás er áætlaður 4 milljónir króna.
Heildarkostnaður við grundun milli grasvallar og íþróttahúss, ásamt því að færa grasvöllinn og endurgera frjálsíþróttaaðstöðu er því áætlaður 94 milljónir króna.
Óverulegur kostnaður
Grundun á gervigrasvellinum er mun ódýrari og í rannsókninni frá 1998 kemur fram að byggja megi hlutfallslega létta byggingu beint á fyllinguna eftir að fyllingin hefur verið þjöppuð rækilega með þungum valtara. Frá vallarhúsi liggur fráveitulögn út í sjó. Þar sem eingöngu er um að ræða fráveitu frá einu húsi ætti ekki að vera neitt því til fyrirstöðu að lögnin verði þar áfram, hins vegar þarf að endurskoða staðsetningu brunna. Kostnaður við grundun húss á þessum stað er því óverulegur eða að hámarki 5 milljónir króna.