Mörg hitamet slegin

Gærdagurinn var langhlýjasti dagur ársins til þessa. Meðalhiti í byggð var 12,0 stig og Trausti Jónsson veðufræðingur segir að það komi deginum í hóp hlýjustu maídaga sem vitað er um og það sé óvænt svona snemma í mánuðinum. Landsdægurhámarksmet var sett, hiti komst í 22,8 stig í Ásbyrgi og Bjarnarey. Þetta er næsthæsti hiti sem vitað er um á landinu svo snemma árs. Dægurhámarksmet voru sett á meirihluta stöðva og maímánaðarmet á allmörgum, þar á meðal tveimur mönnuðum, Bolungarvík (18°) og Litlu-Ávík á Ströndum (16,6°).

Að tiltölu var dagurinn hlýjastur í Gerðibrekku á Tjörnesi þar sem hiti var 13,1 stigi ofan meðallags, en lægstur við Skarðsfjöruvita, 1,5 stig ofan meðallags. Þokusælt var víða suðaustanlands og við Austfirði sunnanverða. Hiti komst í 20 stig eða meira á 14 stöðvum af 107 í byggð og í 10 stig eða meira á 102 stöðvum.

DEILA