Mikill heiður og hvatning fyrir Kerecis

Hluti starfsmanna Kerecis á Ísafirði með Vaxtarsprotann.

Ísfirska nýsköpunarfyrirtækið Kerecis hlaut Vaxtarsprotann nú á dögunum. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, afhenti Vaxtarsprotann á þriðjudaginn í Kaffi Flóru í Grasagarðinum í Laugardal. Vaxtarsprotinn er samstarfsverkefni Samtaka iðnaðarins, Samtaka sprotafyrirtækja, Háskólans í Reykjavík og Rannsóknarmiðstöðvar Íslands. Þetta er í 11. skiptið sem viðurkenningarnar eru veittar en tilgangur verkefnisins er að vekja athygli á góðum árangri sprotafyrirtækja í örum vexti og skapa þannig aukinn áhuga og skilning á uppbyggingarstarfi þessara fyrirtækja.

Kerecis sem var stofnað 2009 er dæmi um vaxtarsprota sem byggst hefur upp á nokkrum árum og tekur nú flugið með auknum umsvifum á erlendri grundu en starfsmannafjöldi hefur vaxið úr 18 í 26 og útflutningur nemur yfir 91% af veltu og fyrirtækið jók veltuna um meira en 100% á síðasta ári.

Dóra Hlín Gísladóttir, situr í framkvæmdastjórn Kerecis og hefur starfað hjá fyrirtækinu frá upphafi. Hún segir Vaxtarsprotann mikinn heiður fyrir Kerecis og hvatningu til að sækja enn frekar fram. „Staðan í dag er að við erum í örum vexti með áherslu á sölu og viðskiptaþróun. Við erum reyndar ennþá í talsverðri vöruþróun en þungamiðjan er í sölumálum og viðskiptaþróun,“ segir Dóra Hlín.

Kerecis er lækningavörufyrirtæki sem notar roð til að græða sár og styrkja líkamsvefi, til dæmis við endurgerð á brjóstum og til viðgerðar á kviðslitum. Fyrirtækið hefur verið að hasla sér völl í Bandaríkjunum sem er einn kröfuharðasti markaður í heimi fyrir lækningavörur. Vöxtur í sölu fyrirtækisins kemur fram þremur árum eftir að markaðsleyfi fengust fyrir fyrstu vöru fyrirtækisins sem var til meðhöndlunar á sykursýkissárum. Kerecis er með skráð einkaleyfi í Bandaríkjunum og fleiri löndum og hafa meira en 10 þúsund sjúklingar verið meðhöndlaðir með sáraroði félagins á undanförnum árum.

Hugmyndin að baki notkunar á roði til sárameðferðar kemur frá Guðmundi FertramSigurjónssyni og voru fyrstu verkefnin unnin á Ísafirði þar sem fyrirtækið er enn með aðsetur og framleiðslu en fyrirtækið er einnig með starfsemi í Reykjavík og Arlington í Virginiu í Bandaríkjunum. Læknarnir Baldur Tumi Baldursson og Hilmar Kjartansson eiga einnig stóran þátt í hugmyndinni ásamt Dóru Hlín.

Kerecis vinnur að því að þróa betri meðferðarúrræði við brunasárum og njóta nokkur verkefna fyrirtækisins stuðnings varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna en brunasár eru meðal algengustu slysa og sára í hernaði. Kerecis er í eigu íslenskra, bandarískra, breskra og franskra hluthafa. Um það bil helmingur hluthafa eru upphaflegir stofnendur fyrirtækisins en aðrir hlutir eru í dreifðri eignaraðild.

DEILA