Lokahátíð Tónlistarskólans

Lokahátíð og skólaslit Tónlistarskóla Ísafjarðar verða í Ísafjarðarkirkju í kvöld. Boðið verður upp á fjölbreytt tónlistaratriði og ávörp, þar verða skírteini afhent og veittar viðurkenningar og verðlaun fyrir skólaárið sem nú er að ljúka. Að sögn Ingunnar Óskar Sturludóttur, skólastjóra T.Í. hefur skólastarfið í vetur gengið prýðilega, það hafi verið skemmtilegt og uppskeran góð. Í skólann á Ísafirði og í útibúum hans á Flateyri, Suðureyri og Þingeyri stunduðu 226 nemendur nám í einkanámi, forskóla og kór en auk þeirra sóttu 47 leikskólabörn tónlistartíma. Þar að auki eru 25 manns í lúðrasveit skólans.
Starfsemi Tónlistarskóla Ísafjarðar hefur sannarlega sett svip sinn á menningarlífið þennan veturinn sem svo oft áður. Fjölmargir tónleikar hafa verið haldnir á vegum skólans og hafa nemendur hans komið fram víða. Dagur tónlistarskólanna var haldinn hátíðlegur með stórtónleikum í Ísafjarðarkirkju og eru þeir tónleikar jafnan stærsti viðburður skólaársins – þar sem allir nemendur skólans komu fram.

„Nemendur skólans eru til fyrirmyndar, duglegir og áhugasamir upp til hópa. Það er gaman að geta glatt aðra með tónlistarflutningi og það hafa nemendur sannarlega gert á þessu skólaári og gert víðreist bæði innan og utan Ísafjarðar. Það er skólanum afar mikilvægt hversu vel heimamenn sækja tónleika skólans og sýna starfi hans mikinn velvilja og því hlökkum við til að sjá sem flesta í Ísafjarðarkirkju í kvöld,“ segir Ingunn.

Sigríður Ragnarsdóttir skólastjóri lætur nú af störfum við skólann eftir 45 ára gjöfult starf. Störf hennar við skólann hafa verið einkar farsæl, skólanum og samfélaginu öllu til heilla. Ingunn segir mikla eftirsjá vera að Sigríði með sína miklu reynslu og skörpu sýn á skóla- og samfélagsmál: „Það er einnig gott til þess að hugsa að framtíðarstjórnendur Tónlistarskólans muni geta leitað til hennar um ráðgjöf í síbreytilegu skólaumhverfi 21. aldarinnar.“

Allir eru velkomnir á lokahátíðina sem hefst klukkan 20 og vonast T.Í.-fólk til að sjá sem flesta, nemendur, sem og alla velunnara skólans.

annska@bb.is

DEILA