Landvernd krefst þess að stjórnvöld móti skýra stefnu sem banni ræktun á eldislaxi í sjó nema tryggt sé að erfðablöndun geti ekki átt sér stað við íslenska laxastofna. Í ályktun aðalfundar Landverndar segir að þetta megi tryggja með notkun geldstofna eða ræktun í lokuðum kerfum í sjó eða á landi. Auk þess þurfi að tryggja öflugt eftirlit með starfsemi fiskeldisfyrirtækja. Í ályktuninni segir að rannsóknir hafi sýnt að erfðablöndun eldislax við villta stofna Atlantshafslax hafi neikvæð áhrif á lífsferil og möguleika villtra stofna til að bregðast við breytingum í umhverfi til lengri tíma litið vegna erfðabreytinga.