Ískönnunarvélar til sýnis á Ísafjarðarflugvelli

Twin Otter vélin sem verður til sýnis í dag.

Twin-Otter flugvélin bandaríska, sem flýgur í rannsóknarskyni frá Ísafirði þessa dagana hefur vakið athygli margra bæjarbúa. Bandarískt teymi rannsóknarmanna hefur gert vélina út frá Ísafjarðarflugvelli undanfarnar vikur og mun dvelja samtals í fjórar vikur. Mánudaginn 8. maí bætist svo flugvél Landhelgisgæslunnar við í sínu árlega ískönnunarflugi en Gæslan hefur verið rannsóknarteyminu innan handar frá komunni til landsins.

Í tilefni þess að flugvélarnar tvær verða staddar á Ísafirði er almenningi boðið að skoða þær í dag kl. 18:00 (eftir brottför áætlunarflugs) og fræðast um vélarnar og verkefni þeirra frá fyrstu hendi.

Flugvélarnar tvær eru ólíkar og hið sama má segja um verkefni þeirra þótt í báðum tilvikum sé verið að kanna stöðu hafíss. Twin Otter vélin tilheyrir Naval Postgraduate School í Bandaríkjunum og er búin margvíslegum mælitækjum sem mæla orkuskipti milli hafs og lofts við ísröndina. Flæði hreyfiorku, vindþrýstings á yfirborði, flæði hitaorku, rakaflæði og geislunarflæði sólskins og jarðskins eru mæld í leiðangrinum. Auk þess eru mældar agnir í lofti og áhrif þeirra á skyggni. Þá er flugvélin einnig búin myndavélum bæði venjulegum myndavélum sem og innrauðum myndavélum sem mynda yfirborð íssins á sekúndu fresti. Gögn af þessu tagi eru af skornum skammti og munu þau því án efa gagnast við gerð spálíkana og við fjölmargar rannsóknir sem snúa að loftslagsmálum og hafís. Til þess að safna slíkum gögnum þarf að fljúga mjög lágt. Twin Otter vélin flýgur því í um 30 m hæð yfir sjó/ís og að sögn rannsóknarteymisins hefur jafnvel mátt greina spor eftir hvítabirni í þessum lágflugum. Rannsóknarteymið bandaríska er með vinnuaðstöðu í Háskólasetri Vestfjarða og á Ísafjarðarflugvelli í samtals fjórar vikur.

 

Ísbjarnarspor á hafísnum úti fyrir Vestfjörðum

Dash flugvél Landhelgisgæslunnar er mun stærri og sinnir hún fjölbreyttum verkefnum á vegum Gæslunnar árið um kring. Eitt af þessum verkefnum er að mæla reglulega útbreiðslu hafíss í íslenskri efnahagslögsögu og þá sérstaklega á Grænlandssundi. Þetta er mikilvægt til að vara fiskiflotann við ísjökum á siglingaleiðum. Sambærilegar mælingar um langt árabil geta líka gefið upplýsingar sem gagnast í spálíkönum og mati á loftslagsbreytingum. Flugvél Landhelgisgæslunnar stoppar aðeins þennan eina dag á Ísafirði.

Áhafnir vélanna verða á Ísafjarðarflugvelli upp úr kl. 17:30. Eftir brottför áætlunarflugs kl. 18:00 verða flutt nokkur stutt kynningarávörp á meðan vélunum tveimur verður komið fyrir framan við flugstöðvarbygginguna. Að þessum stuttu ávörpum loknum gefst áhugasömum gestum tækifæri til að skoða vélarnar og fræðast nánar um þær og verkefnin hjá áhöfnunum. Allir eru velkomnir, ungir sem aldnir, upprennandi flugkappar og ekki síst fólk með tæknidellu enda eru vélarnar hlaðnar mælitækjum af ýmsum toga.

DEILA