Húsnæðisliðurinn heldur verðbólgunni uppi

Verðbólga í þessum mánuði mældist minni en markaðsaðilar höfðu spáð, samkvæmt tölum sem Hagstofa Íslands birti í gær. Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,2% í maí sem þýðir að ársverðbólga minnkaði á milli mánaða úr 1,9% í 1,7%. Greiningaraðilar höfðu hins vegar flestir spáð 0,3% til 0,4% hækkun neysluvísitölu. Sem áður er það húsnæðisliður vísitölunnar sem heldur uppi verðbólgunni en ef litið er fram hjá honum mældist 2,6% verðhjöðnun síðasta árið.
Greiningardeild Arion banka bendir á að innlendar vörur og þjónusta hafi hækkað sáralítið undanfarna 12 mánuði, og þá helst opinber þjónusta. Þrátt fyrir að launakostnaður hafi hækkað nokkuð í maí sökum kjarasamningsbundinna hækkana, telur Arion banki að innlendur verðbólguþrýstingur verði áfram óverulegur næstu mánuði sökum aukinnar samkeppni og áframhaldandi gengisstyrkingar.

DEILA