Hefur ekki áhrif á vottanir Arnarlax

Víkingur Gunnarsson. Mynd: mbl.is / Helgi Bjarnason.

Arnarlax vonast til að geta hafið aflúsun í Arnarfirði í þessari viku. Að sögn Víkings Gunnarssonar, framkvæmdastjóra Arnarlax, er um að ræða sex kvíar á einni eldisstöð sem er við Hringsdal. Aðspurður hvort að notkun lyfja hafi áhrif á strangar vottanir Whole Foods segir Víkingur svo ekki vera. „Hins vegar munum við ekki senda þeim fisk úr þessum kvíum. Í kvíunum í Hringsdal eru um tólf prósent af okkar framleiðslu og eftir meðferðina stenst fiskurinn ekki kröfur Whole Foods. Við höfum hins vegar nóg af öðrum fiski til þess að standa við framleiðsluskuldbindingar okkar. Whole Foods er að sjálfsögðu kunnugt um aðgerðirnar sem framundan eru,“ segir Víkingur.

Til að byrja með verður aflúsað í einni kví af sex. „Við könnum áhrifin í þeirri fyrstu áður en við höldum áfram, væntanlega í næstu viku.“

Hvað varðar fullyrðingu á vefsíðu Arnarlax um að fyrirtækið beiti ekki lyfjameðhöndlun í baráttu við lús segir Víkingur ekki ástæðu til að fella hana út fyrr en farið verði í aflúsun. „Aðgerðin er hins vegar sértæk og verður vonandi aldrei hluti af framleiðsluferlinu okkar. Mér finnst ekki ósennilegt að við munum orða þetta nákvæmar eða jafnvel fella út það sem segir um aflúsun,“ segir Víkingur.

DEILA