Hátíðisdagur í Tónlistarskólanum

Tónleikarnir verða í Hömrum.

Á laugardaginn verður sannkallaður hátíðisdagur í Tónlistarskóla Ísafjarðar. Þá munu tveir nemendur skólans, þau Mikolaj Ólafur Frach og Anna Anika Jónína Gumundsdóttir halda einleikstónleika en þau þreyta bæði framhaldspróf í píanóleik í vikunni.

Anna og Mikolaj hafa bæði stundað nám við Tónlistarskóla Ísafjarðar frá unga aldri. Anna fæddist á Ísafirði 19. maí 1998 og hóf píanónám sitt í útibúi Tónlistarskólans á Flateyri árið 2004 en undanfarin 3 ár hefur Beata Joó verið aðalkennari hennar. Anna Anika hefur tekið virkan þátt í skólastarfinu og komið fram innan tónlistarskólans og utan hans. Hún tók t.a.m. tvisvar þátt í Samfés ásamt vinum sínum og spilaði í annað skiptið til úrslita í Reykjavík. Í nóvember árið 2015 tók Anna þátt í píanókeppni EPTA og hafnaði í 4.-5. sæti. Anna hefur tekið þátt í tónlistarflutningi á sólrisuhátið MÍ árin 2016 og 2017. Í vetur hefur hún verið í ryþmasveit tónlistarskólans. Anna Jónína kveður Tónlistarskóla Ísafjarðar með þessum tónleikum en hún hyggst hefja nám í eðlisfræði við Háskóla Íslands næsta haust. Dagskráin er fjölbreytt og fær Anna til liðs við sig nokkra gesti meðal annarra afa sinn Björgvin Þórðarson sem syngur einsöng.

Mikolaj fæddist á Ísafirði árið 2000. Hann hóf píanónam hjá móður sinni Iwonu Frach aðeins fimm ára gamall en hún hefur verið aðalkennari hans frá upphafi.

Mikolaj hefur hlotið margar viðurkenningar á tónlistarkeppnum bæði hér á landi og í útlöndum. Mikolaj  sigraði VI Píanókeppni Íslandsdeildar EPTA í Reykjavík (2015), hlaut þriðju verðlaun í XIII Alþjóðlegri Píanókeppni í Görlitz (2014). Einnig hlaut hann annað sæti í Fryderyk Chopin Interpretation Competition í Reykjavík (2010). Mikolaj hefur margsinnis komið fram fyrir hönd skólans á Lokatónleikum Nótunnar í Hörpu.

 

Mikolaj stundar líka gítar- og söngnám við TÍ en hugðarefni hans eru liggja ekki eingöngu í tónlistinni, heldur skipa íþróttir stóran í sess í lífi hans og má þar nefna sund og gönguskíði. Á efnisskráni eru m.a. verk eftir Bach, Beethoven og Chopin.

 

Tónleikarnir verða í Hömrum og hefjast tónleikar Önnu Jónínu kl. 13 en tónleikar Mikolaj verða kl. 16.

 

 

 

DEILA