Launavísitala hækkaði um 0,4% milli febrúar og mars og hefur hún nú hækkað um 5% frá því í mars í fyrra. Stöðugt hefur þó hægt á hækkunartaktinum frá aprílmánuði 2016, þegar árshækkunin náði hámarki í 13,4%. Segir í fréttatilkynningu frá Landbankanum að launahækkunartakturinn sé því nú ekki ósvipaður því sem var á árunum 2012 til 2015.
Bent er á að núgildandi kjarasamningar hafi verið framlengdir um eitt ár í febrúar sl. Það hafi falið í sér að laun hækkuðu að jafnaði um 4,5% 1. maí og gildi samningurinn áfram munu laun hækka um 3% 1. maí 2018. „Eins og oft hefur verið nefnt var stefnt að því með Salek-samkomulaginu að hækkun launakostnaðar færi ekki fram úr 32% frá árslokum 2014 fram til ársloka 2018. Hækkun launavísitölu frá árslokum 2014 fram til mars 2017 er orðin 20,8%. Sé áðurnefndum áfangahækkunum bætt við fæst launahækkun upp á 30% þannig að svigrúmið er næstum fullnýtt þegar eitt og hálft ár er eftir af samningnum,“ segir í tilkynningunni.