Skemmtiferðaskipavertíðin á Ísafirði hefst á fimmtudaginn þegar Ocean Diamond leggst að bryggju. Ocean Diamond siglir hringinn í kringum landið í allt sumar og kemur tólf sinnum til Ísafjarðar og síðasta koman er í lok september. „Vertíðin leggst vel í okkur á höfninni. Þetta verður metsumar og það sér ekkert fyrir endann á fjölgun skipa,“ segir Guðmundur M. Kristjánsson hafnarstjóri á Ísafirði. Bókanir fyrir sumarið 2018 eru komnar vel á veg og að sögn hafnarstjórans hafa um 100 skip bókað komu sína á næsta ári og sumarið 2019 lítur einnig vel út.
Aðspurður hvað valdi þessum öra vexti í komum skemmtiferðaskipa til Ísafjarðar segir Guðmundur að hann hafi nýlega verið á ráðstefnu Cruise Europe samtakanna og þar hafi komið skýrt fram að vöxturinn í greininni er í Norður-Evrópu og í Kína. „Skipin eru að draga sig frá Miðjarðarhafinu til dæmis. Svo liggur skýringin á okkar vinsældum einnig í að Ísland er almennt vinsæll áfangastaður og það gildir jafnt um skemmtiferðaskipin sem og aðra tegundir ferðaþjónustu,“ segir hann.