Uppskeruhátíð yngri flokka körfuknattleiksdeildar Vestra verður haldin á Torfnesi í dag. Þar munu hinir yngri iðkendur deildarinnar gera sér glaðan dag með foreldrum og aðstandendum. Fagnað verður góðu vetrarverki og viðurkenningar veittar og slegið verður upp pylsuveislu. Yngri flokkarnir telja iðkendur á aldrinum 4-16 ára, en allir velunnarar körfunnar eru velkomnir á hátíðina, sem fer fram á milli klukkan 18 og 20.
Frammistaða Vestrakrakkanna í vetur hefur verið afar góð, fleiri hópar tóku þátt í Íslandsmótum en verið hefur um langt árabil og fyrsti bikarmeistaratitill hins nýstofnaða Vestra kom í hús hjá 9. flokki drengja í körfunni. Tvö elstu lið drengjanna luku keppni í vor í A-riðli og tvö elstu lið stúlknanna í B-riðli. Krakkarnir hafa því att kappi við öll bestu lið landsins í sínum aldurshópum í vetur og staðið sig með miklum ágætum. Minnibolti eldri drengja (10-11 ára) á lokamót vetrarins eftir og fer það fram í DHL-höllinni nú um helgina.
Formlegum vetraræfingum iðkenda í 4. bekk og yngri er nú lokið en eldri iðkendur æfa út maímánuð eða fram að hinum árlegu Körfuboltabúðum Vestra, sem fram fara í níunda sinn dagana 30. maí-4. júní. Að búðunum loknum taka við sumaræfingar í körfunni.