Ríkisstjórnin hefur ákveðið að tillögu umhverfis- og auðlindaráðherra að ráðast í átak í landvörslu í sumar. Verður 160 milljónum veitt aukalega til landvörslu á stöðum í náttúru Íslands sem fjölsóttir eru af ferðamönnum. Um er að ræða 70% aukningu landvarðavikna sem ráðið er í til skemmri tíma.
Aukin landvarsla og umsjón með viðkvæmum svæðum er að mati ráðuneytisins ein skilvirkasta leiðin til að vernda náttúru Íslands nú þegar stefnir í metár í heimsókn ferðamanna til landsins. Viðvera landvarða er einnig öryggismál og er ekki síst mikilvæg á þeim svæðum sem enn vantar upp á að innviðir séu fullnægjandi.
Umhverfisstofnun og Vatnajökulsþjóðgarður munu hafa umsjón með verkefninu sem beinist m.a. að lengingu viðveru landvarða nú í vor og haust í samræmi við lengingu ferðamannatímabilsins.