Ánægja í herbúðum Kómedíuleikhússins

Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri og Elfar Logi með nýundirritaðan samstarfssamning.

Ísafjarðarbær og Kómedíuleikhúsið hafa endurnýjað samstarfssamning sinn og er samningurinn til tveggja ára. „Það ríkir mikil ánægja í herbúðum Kómedíuleikhússins og um leið má segja að endurnýjun á vorum samstarfssamningi við bæinn sé viðurkenning á okkar starfi,“ segir Elfar Logi Hannesson kómedíustjóri. Hann segir að samstarfið hafi verið farsælt og ef eitthvað, þá vill hann tryggja samstarfið enn frekar. „Með þessum samningi gefst æskunni færi á að sjá leiksýningar minnst einu sinni á ári og sérlega ánægulegt er að nú er einnig í samstarfinu tyggðir tveir listviðburðir á Hlíf,“ segir hann.

Fleiri verkefni Kómedíuleikhússins eru í samningnum, m.a. leikatriði á 17. júní og jólasveinadagskrá í Safnahúsinu.

Einleikur Kómedíuleikhússins um Gísla á Uppsölum sló svo sannarlega í gegn í vetur, en verkið sem Elfar Logi og Þröstur Leó Gunnarsson sömdu, var frumsýnt í haust á söguslóðum í Selárdal í Arnarfirði. Elfar Logi hefur verið víðförull með verkið og sýnt það um allt land, m.a. var það sett upp fimmtán sinnum í Þjóðleikhúsinu og hefjast sýningar þar á nýjan leik um miðjan maí.

Elfar Logi segir að samningurinn tryggi betur mánaðamótin sem hið kómíska leikhús er sannarlega enn að fást við einsog svo mörg önnur apparöt. Hann vonast til að starfsemi Kómedíuleikhússins hér hér vestra og um allt land eigi þátt í að vekja athygli á sköpun og menningu í Ísafjarðarbæ.

„Um leið að virkja hvetjandi fyrir lista- og þá ekki síst leiklistarstarfsemi í bænum sem hefur nú oft verið fjörugri. Nú er sannarlega lag til að efla listina og leiklistina í Ísafjarðarbæ. Enda er lífið leikur og vissulega oft kómedía,“ segir Elfar Logi.

DEILA