Árleg Álfasala SÁÁ hófst í dag og stendur fram á sunnudaginn 14. maí. Hún er nú haldin í 28. skipti og er stærsta fjáröflunarverkefni SÁÁ ár hvert. Allur ágóði af sölunni rennur til að greiða fyrir þjónustu SÁÁ við ungt fólk, bæði afeitrun og meðferð, sálfræðiþjónustu barna eða aðra þjónustu við fjölskyldur áfengis- og vímuefnasjúklinga.
Fram kemur í tilkynningu að slagorð Álfasölunnar sé það sama og undanfarin ár: ‚‚Álfurinn fyrir unga fólkið‘‘.
„Með því er lögð áhersla á að afrakstur sölunnar styður við meðferðarúrræði samtakanna fyrir unga vímuefnasjúka og einnig fyrir aðstandendur, þar á meðal börn alkóhólista. Frá árinu 2000 hefur SÁÁ rekið unglingadeild á sjúkrahúsinu Vogi en frá því að sjúkrahúsið var byggt hafa um 8.000 einstaklingar yngri en 25 ára lagst þar inn. Fjölskyldudeild SÁÁ býður meðal annars sálfræðiþjónustu fyrir börn alkóhólista. Yfir 1.100 börn hafa nýtt þá þjónustu sem er að nær öllu leyti kostuð með tekjum af sölu álfsins og öðru söfnunarfé,“ segir í tilkynningu.
„Þjóðin hefur stutt við bakið á SÁÁ og tryggt að samtökin geti veiti vímuefna- og áfengissjúklingum og fjölskyldum þeirra eins góða þjónustu og kostur er. Ef ekki væri vegna stuðnings almennings þyrfti að draga umtalsvert úr öllu starfi SÁÁ. Þjónusta SÁÁ við börn og aðra aðstandendur áfengis- og vímuefnasjúklinga er til dæmis öll kostuð tekjum af sölu álfsins og öðrum styrkjum. Kærar þakkir fyrir allan stuðninginn. Styðjum SÁÁ og kaupum álfinn,” segir Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ í tilkynningu.