Meistaraflokkur Vestra í knattspyrnu er nýkominn heim úr vikulangri æfingaferð til Spánar. Samúel Samúelsson, formaður meistaraflokksráðs, segir að ferðin hafi verið vel heppnuð í alla staði, toppaðstæður og frábært veður. Ekki spillti fyrir að liðið lék einn æfingarleik og náði 3-3 jafntefli við úrvalsdeildarlið Breiðabliks. Þegar heim var komið beið Vestramanna síðasti leikur í B-deild Lengjubikarsins sem var leikinn í Egilshöll í gær. „Við ætluðum okkur áfram í Lengjubikarnum en það fauk út um gluggann þegar við töpuðum í gær fyrir þriðjudeildarliðinu Vængjum Júpíters,“ segir Samúel.
Vestramenn líta á Lengjubikarinn sem undirbúningsleiki en Samúel segir engu að síður hundfúlt að detta út eftir tap gegn liði úr þriðju deild.
Fyrsti deildarleikur Vestra í 2. deild Íslandsmótsins verður á Torfnesi þann 6. maí og mótherjinn verður lið Fjarðabyggðar. Samúel segir að leikmenn, þjálfarar og allir sem koma að meistaraflokki Vestra fari bjartsýnir inn í sumarið. „Við ætlum okkur upp um deild, það er ekkert annað í boði.“
Tveir þjálfarar verða með liðið í sumar. Englendingurinn Danil Badu er stuðningsmönnum Vestra vel kunnur, en hann lék fyrst með BÍ/Bolungarvík, forvera Vestra, sumarið 2012 og hefur verið viðloðandi liðið meira og minna síðan.
Með Daniel verður Bosníumaðurinn Danimir Milkanovic, en hann var í þjálfarateymi Grindavíkur síðasta sumar. „Hann hefur verið í þjálfarateymi u-21 landsliðs Bosníu og er mikill fagmaður,“ segir Samúel.
Það er gömul saga og ný að aðstæður til fótboltaæfinga að vetrarlagi eru bágbornar á Ísafirði og og frost og snjóar eru oft langt fram á vor. Samúel segir það því mikið fagnarðarefni að bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar ætli að stefna að byggingu knattspyrnuhúss. „Þetta er það sem við þurfum. Þó veturinn hafi verið ágætur í ár, þá vorum við til dæmis að vonast til að geta komið heim frá Spáni og æft úti en við ráðum ekki við veðrið og snjóalög og því bíður það eitthvað. Mörg þeirra liða sem við erum að keppa við geta æft inni á veturna og knattspyrnuhús verður gríðarlegt framfaraskref fyrir fótboltann,“ segir Samúel.