Veiðifélög við Húnaflóa lýsa yfir þungum áhyggjum af þeirri ógn „sem stafar af áætlunum um hömlulaust laxeldi víða um land í opnum sjókvíum og mótmæla harðlega fyrirætlunum um stórfellt laxeldi á Vestfjörðum, Austfjörðum og í Eyjafirði með ógeltum norskum laxastofni, sem er í dag mesta náttúruvá íslenskra lax- og silungastofna og veiðiáa um allt land.“
Þetta kemur fram í ályktun sem stjórnir Veiðifélags Laxár á Ásum, Veiðifélags Vatnsdalsár, Veiðifélags Blöndu og Svartár, Veiðifélags Víðidalsár og Veiðifélags Miðfirðinga sendu frá sér í dag.
Í ályktun sinni benda stjórnir veiðifélaganna á að nánast allt laxeldið sé í meirihlutaeigu norskra eldisfyrirtækja, sem séu að sækja í ókeypis afnot hafsins í óspilltum íslenskum fjörðum og sem litlu skeyta um mengun náttúrunnar.
„Nú þegar allt nýtt eldi í opnum sjókvíum með ógeltum laxi hefur verið sett á ís í Noregi, keppast þeir hinir sömu við að helga sér ókeypis íslenskan sjó, áður en Íslendingar átta sig á þeim hrikalega umhverfisskaða sem þessi stóriðja mun valda að óbreyttu. Þeir hyggjast stunda mengandi eldi hér á landi meðan þeir verða að breyta yfir í grænt eldi heima fyrir. Á að heimila norskum eldisfyrirtækjum að nota hina úreltu mengandi eldistækni hér á landi sem þeir vilja ekki hafa heima hjá sér?“
Í ályktuninni segir að búið séð að að lýsa neikvæðum áhrifum erfðablöndunar eldislaxa í náttúrulega stofna ítarlega í fjölmörgum erlendum rannsóknum og að slík erfðablöndun leiði til minnkaðrar viðkomu, trufli náttúruval og dragi úr líffræðilegri fjölbreytni villtu laxastofnanna.
Segir í ályktuninni að lax- og silungsveiði byggi á sjálfbærni hreinnar og óspilltrar náttúru. Greinin velti árlega meira en 20 milljörðum króna og skapi 1.200 störf hér á landi. Þá hafi markaðssetning greinarinnar byggt upp verðmæta alþjóðaímynd landsins og ekki megi fórna íslenskri náttúru fyrir innrás norskra stórfyrirtækja.
smari@bb.is