Hlutdeild stórlaxa í gönguseiðaárgöngum í Langadalsá fer nú vaxandi eftir stöðuga fækkun undanfarna áratugi. Stangaveiðin á laxi 2016 var yfir langtíma meðalveiði og einkenndist af lélegum smálaxagöngum, en stórlaxaveiðin var sú mesta frá árinu 1980. Hrygning laxa í ánni hefur aukist mjög undanfarinn áratug samfara auknum göngum laxa, aukningu í fjölda og hlutdeild stórlaxa og skyldusleppingum þeirra í veiðinni. Þetta hefur skilað margfaldri nýliðun seiða miðað við mælingar frá níunda og tíunda áratugnum. Þetta kemur fram í nýútkominni skýrslu Hafrannsóknarstofnunar um vöktun á stofnum lax og bleikju í Langadalsá við Ísafjarðardjúp árið 2016, en slík hefur farið fram árlega síðan árið 2013. Markmið með rannsóknunum er að vakta breytingar á umhverfisþáttum, veiðinýtingu, hrygningu og nýliðun fiskstofnanna auk þess sem fylgst er með lífssögulegum þáttum þeirra. Sumarið 2016 var í fyrsta sinn komið fyrir fiskteljara í Langadalsá til að kanna stærð laxa – og bleikjugöngunnar, göngutíma og veiðihlutfall laxfiskastofna í stangaveiðinni.
Alls gengu 225 laxar og 39 bleikjur upp fyrir fiskteljarann í Langadalsá sumarið 2016 og skiptist laxagangan jafnt á milli smálaxa og stórlaxa (112 smálaxar og 113 stórlaxar). Nokkur lax, einkum tveggja ára lax úr sjó, var genginn í Langadalsá þegar að teljarinn var settur niður þann 29. júní og höfðu þá þegar veiðst 22 laxar í ánni, en veiðar í ánni hófust 24. júní. Heildartalning bleikju og lax inn á vatnasvæðið liggur því ekki fyrir.
Langadalsá er ein af stærri veiðiám við Ísafjarðardjúp. Verðmæt veiðinýting á laxi og bleikju hefur verið stunduð í ánni frá því um miðja 20. öld. Veiðimálastofnun hefur annast með hléum rannsóknir á fiskstofnum árinnar fyrir Veiðifélag Langadalsár, en lax er ríkjandi tegund í ánni auk bleikju.
Skýrsluna í heild sinni má lesa hér.