Þrjár staðsetningar á Torfnesi

Fyrstu skref hafa verið tekin í skipulagsvinnu vegna fyrirhugaðs knattspyrnuhúss á Torfnesi. Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar voru lögð fram frumgögn um staðsetningu hússins. Þremur kostum er velt upp eins og sést á meðfylgjandi myndum sem Verkís vann fyrir bæinn. Hafa ber í huga að málið er á algjöru frumstigi, ekki er búið að hanna hús og því eru myndirnar einungis til að sýna stærðarhlutföllin og hvernig mögulegt hús kemst fyrir á svæðinu.

Íþróttahreyfingin í Ísafjarðarbæ hefur verið einhuga um að bygging knattspyrnuhúss eigi að vera næsta stóra verkefni í uppbyggingu íþróttamannvirkja í bænum. Þar ræður tvennt. Annars vegar er aðstaða til knattspyrnuiðkunar mun lakari í Ísafjarðarbæ en í mörgum öðrum sveitarfélögum af svipaðri stærð – og fjórðungurinn sá eini sem ekki státar af yfirbyggðum velli. Hins vegar mundi það létta verulega á þaulsetnu íþróttahúsi ef knattspyrnuæfingar að vetrarlagi færðust í annað hús.

DEILA